Lögguhasar í Svíalandi.

Við Valgý vorum í góðum fíling áðan að elda okkur pítu og með því, þegar allt í einu heyrast svaka læti af stigagangnum, hljómaði eins og hópur fólks að trampa í stiganum.  Löggan var mætt, á tveimur bílum, fór upp á hæðina fyrir ofan okkur.  Svona hálftíma seinna komu þær út aftur með nágranna okkar í haldi og einhverja tösku. Síðan þá er löggan búin að vera að rúnta um gangstéttirnar hérna í kring.  Vitum ekki hvað málið er, en miðað við hvernig handtekni nágranni okkar lítur út þá myndi ég giska á eitthvað lyfja tengt.

 

Alltaf þarf maður að lenda hjá einhverjum lýð þegar maður fer til útlanda. Í Danmörku þurftum við að passa okkur á að stíga ekki á nálar, en ég hef aldrei séð jafn mikið af notuðum nálum á einni gangstétt og þá, og í Finnlandi bjuggum við í einhverri Heróín blokk. Það er nokkuð augljóst að maður á ekki að treysta stofnunum sem redda fyrir mann húsnæði hvort sem maður sé nemi, nordjobbari eða hvað annað. Best að bjarga sér sjálfur. 

Annars ætlum við hvort eð er að flytja í haust, það hefur engum, sem við höfum hitt, litist á hverfið okkar, ekki að það sé eitthvað slum segja þeir, meira bara ekki fínt.  Aðallega viljum við þó færa okkur um sel því hér er aldrei flóafriður, krakkar að öskra, teknó tónlist og meiri teknó tónlist, auk þess sem við komumst að því að það er ódýrara að leigja á almennum leigumarkaði í betri hverfum. 

Held nú samt að nágranni okkar dópsalinn? sé ágætis strákur,  hann er a.m.k. ekki hávær og býður alltaf góðan daginn. 

Annars er allt í góðu í Svíþjóð. Það er farið að rigna, mikið, og hitinn fer alltaf hækkandi, í dag var um 5°C og fræðingarnir segja að það ætti að að vera komið í 10° eftir helgina. Vorið á næsta leiti. 

Já, síðan vil ég hvetja báða lesendur mína til að kvitta í gestabókina. 

Hej så länge.


Gör Lumpen I Falun I Höst!!

Sjöunda vikan í skólanum er að byrja núna, sem þýðir að ég get farið að leika við Úlla minn eftir u.þ.b. átta vikur og náttúrulega farið í Júróvisjon partý, þó að lagið okkar höfði ekkert sérstaklega til mín. En mér þykir þó ákaflega vænt um Eirík Hauksson. 

Júróvisjón er ennþá í fullum gangi hérna í Svíþjóð en lagið sem ég hélt með er dottið úr keppninni, Kung och fosterland.  Svíarnir eru alveg jafn klikkaðir með þessa hátíð og við, og kannski ekki að furða þar sem þeim gengur nú yfirleitt ágætlega, held ég. 

Ég elska Hrafn Gunnlaugsson og allar myndirnar hans, nema tvær, og ég og hún Ranka systir erum víst ekki ein um það.  Ég hitti ákafan Krumma aðdáanda hérna í Falun um daginn, meira að segja kvenkyns, hún bað mig að segja “þungur hnífur” aftur og aftur, hún alveg elskaði það, hvíslaði síðan að mér að íslenska gerði sig graða.  Sem er svo sem ekkert skrýtið þegar maður pælir aðeins í því hvernig Svíarnir tala. 

Ég hef heyrt að sænski herinn sé frekar öflugur, allavega miðað við höfðatölu, og ef ég fæ að ráða einhverju þá verður hann ennþá öflugri í haust því að hún Valgý mín fékk herkvaðningu í dag, þ.e. var boðið að ganga í kvennadeild heimavarnarliðsins, held að það yrði öflugur liðsauki fyrir Svíana.

Kannki að þeir fari aftur að leggjast í hernaðarbrölt eftir alda langan aumingjaskap, hver veit, og Valgý kannski næsti Patton.


Tjúttað með Hr. Hitler

Fórum að tjútta í gær, voða gaman, fyrir utan það hvað Svíarnir eru miklir okrarar, það kostar allsstaðar 1000 kall inn, ekki nóg með það heldur er skylda á betri stöðum að láta hengja jakkann sinn upp, en það kostar 200 kall aukalega. Össssss.

Hittum eldhressan Svía í gær, galdrakall og bílasölumann, sagði okkur að ef við lentum í vandræðum þá ættum við bara að hóa í hann, hann á víst vini í Helvítis-Englum, svo er hann líka voða hrifinn af Hitler, enda hálfur Þjóðverji og hefur andstyggð á Evrópusambandinu. Góður drengur.

Annars verð ég að vera sammála galdrakallinum vini mínum um Evrópusambandið, get ekki séð að það sé að gera góða hluti, þó það sé virðingarvert að hjálpa vinum okkar í Austur-Evrópu.

Ég held að við eigum ekki samleið með pappírsbákninu í Brussel, þeir vilja bara fiskinn okkar og fullveldið. Hver treystir svo sem Frökkum og Þjóðverjum, ekki ég allavega, held að þetta sé bara gamla heimsvaldsstefnan í nútímabúningi.


Bókaþjóð og ekki neitt.

Er það satt að allir Íslendingar gefi út að minnsta kosti eina bók á ævinni ?   Kennarinn okkar, Roger, spurði okkur að þessu um daginn. Við fórum alveg í kerfi. Vorum ekki viss um hvort hann væri að gera grín að okkur (Íslendingum) eða hvort honum væri nokkurn vegin dauðanns alvara. Hvernig svarar maður svona spurningu ? Auðvitað gefa ekki allir Íslendingar út bók... en margir, allavega í gamla daga.

Eða eru Íslendingar ekki lengur bókaþjóð, kann fólk ennþá að lesa ? Eru bækur bara keyptar fyrir jólin og síðan skipt út fyrir sykur og tóbak í Bónus ?  Eða koma bækurnar okkar ennþá út á færibandi og hafa bara farið framhjá mér ?    Ég veit það ekki, ég les ekki glæpasögur. 

Annars er ég bara bjartsýnn.

Dagurinn í dag var ágætur. Það gerist lítið hérna í Dölunum á virkum dögum og helgarnar eru rólegar.En þar sem það gerist fátt þá gleðst maður yfir litlu. Ég spjallaði við tvo vini á MSN áðan, réttara sagt einn vin og eina gamla vinkonu sem ég hef ekki séð síðan 1999. Þessi gamla vinkona mín sagði mér að hún væri núna stödd í Tyrklandi að læra tyrknesku, gott hjá henni...

Hitt spjallið var þó gleðilegra þar sem fyrrnefndur vinur tilkynnti mér að hann hefði nýlokið við að birta Vomit storie nr. 1 eða Ælusögu nr. 1 á Myspace vefnum, og ég kæmi þar við sögu. Góðar minningar.

Vomit stories eru, eins og titillinn gefur til kynna, sögur af uppsölum höfundar, einskonar endurminningar í æluformi, dagsannar og bráðskemmtilegar. Mæli með þeim, sérstaklega þegar ég er ein af sögupersónunum. 

Danskur, fullur eða vitlaus.

Danir eru aumingjar.  Þessa fullyrðingu heyrði ég í matarboði hjá roskinni frænku minni. Maðurinn hennar hélt þessu fram og hélt áfram, sagði t.d. að danska væri ekki tungumál, Danir hefðu skemmt norskuna og væru með puttana í öllu, hann sumsagt hatar Dani. Sjálfur er hann Norðmaður, búsettur í Svíþjóð. Heyrði seinna að honum væri einnig í nöp við sænska kónginn.  Þetta er fínn kall og skemmtilegur.

Danir eru greinilega víðar litnir hornauga en í Norður-Atlantshafi og í Araba-löndunum, Svíar og Norðmenn eru heldur ekki hrifnir af þeim. Maður hefur svosem oft heyrt svona umtal um Dani heima á Íslandi, en sjálfsagt allt meint í góðu og biturleikinn eftir nýlendutímann ristir grunnt í Íslendingum, allavega er flogið þangað fjórum sinnum á dag og allir sem ég þekki hafa farið til Danmerkur, yfirleitt í skemmtiferðir. Kannski að fullir Íslendingar séu hefnd fyrir nýlendutímann og svo náttúrulega útrás Íslenskra auðjöfra.

Ertu danskur, fullur eða vitlaus ? 


Mánudagar og Börlänge

Mánudagar eru bestu dagar vikunnar. Á mánudögum er aldrei skóli, við eigum alltaf birgðir af nammi eftir helgina, geðsjúklingarnir sem búa í kringum okkur eru þunnir og hljóðlátir og Arrested Development III er í sjónvarpinu.  Annars var þetta róleg helgi hjá okkur, á föstudaginn skiluðum við heimaprófi úr fyrsta áfanganum og höfum bara hangið síðan, nýr áfangi byrjar ekki fyrr en á fimmtudag.

Um daginn heimsóktum við nágrannabæ okkar Börlänge, en sá bær átti víst að vera voða fínn og auk þess að búa yfir stærsta “molli” í Dölunum. Við tókum strætó, og fengum að sjá smá af sveitini í Svíþjóð á leiðinni, landslagið var það sama og á leiðinni frá Stokkhólmi.  Við komum til Börlänge tuttugu mínútum seinna og rútan lenti í miðbænum. Vonbrigðin voru gríðarleg, miðbærinn leit út eins og Hlemm-hlutinn af Laugarveginum, alveg yfirgefin utan tveggja heróínlegra gaura sem gáfu myndavélinni okkar hýrt auga. Þetta var subbulegur draugabær og ekkert líkur okkar krúttlega Falun. Við komumst fljótt að því að allir voru í “mollinu”, það hafði greinilega gengið af miðbænum dauðum. “Mollið” var heldur ekki svo sérstakt, bara venjulegt “moll” yfirfullt af sveittu fólki og risastórum McDonalds.

Stoppuðum ekki lengi og og drifum okkur á strætóstöðina, en ferðin frá “mollinu” að strætóstöðinni varð einstaklega ánægjuleg. Fyrst komumst við að því að undirgöngunum á leiðinni er skipt þannig að gangandi fara hægra megin en hjólandi vinstra megin, ekkert athugavert við það nema að merkingarnar eru nákvæmlega þær sömu báðum megin, þ.e. ganga hægri, hjóla vinstri , svo það er ekkert að marka þær og maður getur alltaf átt von á því að verða klesstur niður af löghlýðnum hjólamanni.

Hitt sem gladdi okkur var 3000km til Vestmannaöerne skilti, svo Börlänge og Vestmannaeyjabær hljóta að vera vinabæir, gaman af því. 

Ferðin endaði síðan á því að við þurftum að standa í strætó ásamt blindfullu fótbloltaliði og áhangendum þess í klukkutíma, en í Svíþjóð byrjar fólk að hella í sig snemma og lætur strætó bíða meðan það fer út að pissa.

Í Svíalandi.

Þá erum við búin að vera hér í Svíalandi í rúman mánuð og ég hef ákveðið að blögga aðeins, hef reyndar ekkert blöggað síðan ég var talsmaður Péza kisukalls, en þetta getur varla orðið verra blögg en hvað annað, þó aldrei jafn gott og Katrínar-blogg en það þýðir ekki að bera sig saman við meistarann.

Það hefur kólnað hægt og sígandi síðan við komum, kuldinn farið allt niður í -15°C, svo hlýnað en kólnað aftur, og sólin hefur ekki látið sjá sig í viku. Ekki ósvipað veður duttlungunum heima þ.e. maður heldur alltaf að það sé komið vor sama hvaða vetrar mánuður er.

Síðan við komum hefur verið framið eitt geðsjúklings-morð, eitt stykki sænskur Bjarni Tryggvason komið til síns heima og fengið orður frá kónginum, Eurovision er að setja Svíana á annan endann og Anja Pärson rústaði heimsmeistaramótinu í Åre, fyrrnefndum kóngi til mikillar ánægju. Annars gerist ekki mikið hérna. Allt í góðu bara og Svíarnir glaðir og hamingjusamir og syngja sig í gegnum lífið.

Ætla að láta þessa færslu duga í bili, skrifa meira um persónuhagi og atburði næst. Þangað til... Adjö.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband