Mánudagar og Börlänge

Mánudagar eru bestu dagar vikunnar. Á mánudögum er aldrei skóli, við eigum alltaf birgðir af nammi eftir helgina, geðsjúklingarnir sem búa í kringum okkur eru þunnir og hljóðlátir og Arrested Development III er í sjónvarpinu.  Annars var þetta róleg helgi hjá okkur, á föstudaginn skiluðum við heimaprófi úr fyrsta áfanganum og höfum bara hangið síðan, nýr áfangi byrjar ekki fyrr en á fimmtudag.

Um daginn heimsóktum við nágrannabæ okkar Börlänge, en sá bær átti víst að vera voða fínn og auk þess að búa yfir stærsta “molli” í Dölunum. Við tókum strætó, og fengum að sjá smá af sveitini í Svíþjóð á leiðinni, landslagið var það sama og á leiðinni frá Stokkhólmi.  Við komum til Börlänge tuttugu mínútum seinna og rútan lenti í miðbænum. Vonbrigðin voru gríðarleg, miðbærinn leit út eins og Hlemm-hlutinn af Laugarveginum, alveg yfirgefin utan tveggja heróínlegra gaura sem gáfu myndavélinni okkar hýrt auga. Þetta var subbulegur draugabær og ekkert líkur okkar krúttlega Falun. Við komumst fljótt að því að allir voru í “mollinu”, það hafði greinilega gengið af miðbænum dauðum. “Mollið” var heldur ekki svo sérstakt, bara venjulegt “moll” yfirfullt af sveittu fólki og risastórum McDonalds.

Stoppuðum ekki lengi og og drifum okkur á strætóstöðina, en ferðin frá “mollinu” að strætóstöðinni varð einstaklega ánægjuleg. Fyrst komumst við að því að undirgöngunum á leiðinni er skipt þannig að gangandi fara hægra megin en hjólandi vinstra megin, ekkert athugavert við það nema að merkingarnar eru nákvæmlega þær sömu báðum megin, þ.e. ganga hægri, hjóla vinstri , svo það er ekkert að marka þær og maður getur alltaf átt von á því að verða klesstur niður af löghlýðnum hjólamanni.

Hitt sem gladdi okkur var 3000km til Vestmannaöerne skilti, svo Börlänge og Vestmannaeyjabær hljóta að vera vinabæir, gaman af því. 

Ferðin endaði síðan á því að við þurftum að standa í strætó ásamt blindfullu fótbloltaliði og áhangendum þess í klukkutíma, en í Svíþjóð byrjar fólk að hella í sig snemma og lætur strætó bíða meðan það fer út að pissa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með að vera búinn með fyrsta áfangann og þetta blogg. Ég geri ráð fyrir því að þú tjáir skoðanir þínar af sömu ástríðu og Pézi gerði á sínu bloggi. Það er þó eitt sem er furðulegt hann hefur ekki verið jafn pólitískur síðan hann hætti að blogga, hann er ekki ennþá búinn að lýsa því yfir að hann ætli í framboð.

 Þín heimsins besta systir

Ragnhildur Ísaksdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 21:43

2 Smámynd: Einar Ísaksson

Takk takk systir góð. Held að Pézi minn vilji fara huldu höfði þessa dagana, hann er með einhverja áætlun í gangi.

Einar Ísaksson, 27.2.2007 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband